AFS eru fræðslu- og friðarsamtök sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni. Meginmarkmið samtakanna er að bjóða upp á þvermenningarleg námstækifæri þar sem hægt er að öðlast þá þekkingu, færni og skilning sem þarf til að vinna að réttlátari og friðsamari heimi. Okkar helsta áhersla til að mæta þessu markmiði hefur alla tíð verið á að senda og taka á móti skiptinemum, ásamt því að fræða skiptinema, fjölskyldur þeirra og sjálfboðaliða um menningu og menningarlæsi. Þetta hafa samtökin gert í yfir 60 ár, en við tökum einnig að okkur að fræða fólk um menningu og samskipti, t.d. í skólum og fyrirtækjum auk þess að taka þátt í viðburðum tengdum fjölmenningu. Aukin áhersla hefur verið lögð á slíka fræðslu hjá AFS á alþjóðavísu og hafa orðið miklar framfarir í þeim málum á síðustu árum.
Innan samtakanna býr því mikil þekking um menningarlæsi og samskipti milli menningarheima. Við teljum að færni í menningarsamskiptum eigi erindi við alla, ekki bara skiptinema og fósturfjölskyldur. Slík færni er mikilvæg til að sporna gegn fordómum og menningarlegum árekstrum og stuðla að auknu umburðarlyndi í samfélaginu og verður sífellt mikilvægari með aukinni alþjóðavæðingu. Við teljum að menntun sem styður við menningarlega fjölbreytni hafi vaxandi vægi í fjölmenningarsamfélagi nútímans. Því höfum við á undanförnum misserum lagt sérstaka áherslu á að koma slíkri fræðslu víðar út í samfélagið og bjóðum því upp á námskeið því tengdu, en finna má nánari upplýsingar um það hér.