Kæru AFSarar
Við eigum von á 25 nemum til skóladavalar frá 15 löndum núna í ágúst. Við erum að leita að fjölskyldum til að opna heimili sín fyrir þessum flotta hópi nema.
Ef þið viljið fá frekari upplýsingar um þessa skiptinema, ekki hika við að senda póst á [email protected] eða á [email protected]
AFS fjölskyldan sér skiptinemanum sínum fyrir fæði og húsnæði, en annan kostnað greiðir nemandinn sjálfur, svo sem útgjöld vegna tómstunda og annan vasapening.
AFS sér um að skrá skiptinemann í skólann, greiðir skólagjöld og námsbækur og aðstoðar við aðlögun, t.d. með námskeiðum.

AFS fjölskyldur gera starf AFS mögulegt

Á hverju ári taka 10.000 AFS fjölskyldur, í 54 löndum þar sem AFS starfar, á móti skiptinemum. AFS hefur áratuga reynslu af nemendaskiptum þar sem samtökin hafa starfað í rúmlega 60 ár í fjölmörgum löndum í heiminum og fleiri þúsund skiptinemar og fjölskyldur hafa tekið þátt í starfsemi AFS. Fjölmargar íslenskar fjölskyldur hafa þegar opnað heimili sitt og mæla eindregið með þeirri reynslu og hvetja fólk sem hefur áhuga á að kynnarst borgurum heimsins að bjóða skiptinema inn í líf sitt.

Allt sem þið þurfið er hjartarými, löngun til að læra eitthvað nýtt og sveigjanleika. 

Þeir sem hafa áhuga á nánari upplýsingum geta haft samband við skrifstofu AFS á Íslandi í síma: 552-5450 eða á [email protected]

profilo juliano

Juliano

Juliano er 16 ára strákur frá Brasilíu þar sem hann býr með foreldrum sínum og eldri bróður Hann fæddist í Mexíkó, bjó fimm ár í Panama og hefur hann því upplifað að þurfa að aðlaga sig að nýjum aðstæðum. Hann lýsir sér sem skapgóðum, brosmildum og jákvæðum strák sem leggur áherslu á að lifa reglubundnu og heilsusamlegu lífi. Frá unga aldri hefur hann stundað margvíslegar íþróttir m.a. siglingar og æfir nú jiu-jitsu.

Sosaku Sato profilo

Sosaku

Sosaku er 15 ára og kemur frá Japan. Hann lýsir sér sem orkumiklum, brosmildum strák sem á gott með að tengjast öðru fólki. Ástæða þess að hann ákvað að fara sem skiptinemi með AFS er að hann hefur mikinn áhuga á stjórnmálum og þá sér í lagi lýðræðislegumi kosningum, honum langar að kynnast og upplifa lýðræðið á Íslandi sem hann segir að sé fyrsta landið í heimi sem bauð upp á lýðræðislegar umræður. Hann vill upplifa það og íslenska menningu til þess að vaxa og þroskast sem manneskja. Hann býr ásamt foreldrum sínum og eldri bróður. Bróður hans var skiptinemi í Finnlandi í fyrra. Fjölskyldan er náin og hefur gaman að því að grínast og horfa saman á kvikmyndir. Segja má að mottó Sosaku sé ef þú brosir framan í heiminn þá brosir hann framan í þig.

Kano Saito profilo

Kano

Kano Saito er 16 ára frá Japan. Hún býr með foreldrum sínum ásamt 2 systrum og 2 bræðum. Þegar hún er í skólanum býr hún á heimavist. Hún hefur mikinn áhuga á erlendri menningu og í framtíðinni langar hana að smíða brýr og hún hefur það sem markmið að mynda allar brýr sem kunna að verða á vegi hennar. Hún getur ekki beðið eftir að sjá norðurljósin, jökla og íslenska náttúru. Vinir hennar lýsa henni sem skemmtilegum orkubolta og fjölskyldan segir að góðmennska sé hennar einkenni. Sjálf lýsir hún sér sem forvitinni, snöggri að taka ákvarðanir og á auðvelt með að horfa á hlutina hlutlægt og rökrétt. Hún stundar námið vel og er virk í félagsstarfi innan skólans m.a. í hönnunarklúbbi. Hún hlakkar til að koma til Íslands og kynnast nýju fólki og menningu. 

profilo helena_

Helena

Helena er 16 stúlka frá Póllandi. Helena er kaþólsk og vill hafa aðgengi að trúarlegum athöfnum. Helena er hjálpsöm, vinnusöm og metnaðarfull en einnig fyndin stúlka. Hún hefur ástríðu fyrir íþróttum sem hún hefur stundað frá ungum aldri, og hefur einkum gaman af því að skíða, hjóla og fara á hestbak.  Fjölskylda hennar býr í fjöllunum svo þau ferðast mikið og Helena elskar að ferðast og eyða tíma með fjölskyldu sinni, að kanna nýja staði og læra sögu þeirra. Bræður hennar kynntu henni fyrir Formula 1 og hún elskar að horfa á keppnir og skoða bíla. Hún elskar dýr og er að stefna á að fara í nám til dýralæknis. Helena elskar að læra og setur mikin metnað í nám sitt, og er þar með mjög forvitin hvernig skólakerfið og námið er í erlendu landi, þó er aðal markmið hennar að kynnast fólkinu og menningunni í landinu, og læra nýtt tungumál. Helena telur að þessi upplifun myndi bæta þekkingu hennar og reynslu. Helena er tilbúin í nýjar, skemmtilegar og einnig erfiðar upplifanir erlendis. 

Erica Regain profilo

Erica

Erica er 17 ára stelpa frá Ítalíu. Hún lýsir sér sem líflegri, forvitinni, áhugasamri stelpu sem er jafnframt viðkvæmni, samúðarfullri og sem finnst gott að sofa út. Hún á það til vera kvíðin sérstaklega fyrir próf og að of hugsa hlutina. Uppáhalds námsgreinarnar hennar eru ítalska, saga og efnafræði. Hún elskar tónlist hefur spilað á píanó frá sex ára aldri, lærði jafnframt á flautu og nýtur þess að syngja. Hún hefur áhuga á hestamennsku og hefur stundað útreiðar s.l. þrjú ár. Hún er virkur skáti og finnst yndislegt að eyða tíma  í náttúrunni. Vegna ástar á dýrum gerðist hún grænmetisæta.

Julie Boekhoud profilo

Julie

Julie er 17 ára stúlka frá Hollandi sem býr með móður sinni, og tveimur systkinum, tvítugum bróður og átján ára systur. Hún er grænmetisæta sem elskar náttúru og dýr og elskar að læra um náttúruvísindi, einkum líffræði, og stefnir að því að verða dýralæknir eða dýrafræðingur. Hún sækist í samverustundir, hvort sem það er með vinum og fjölskyldu eða hestunum sínum og hundi. Julie er virk stúlka sem nýtur þess að fara í gönguferðir og ferðalög, en kann einnig að meta að slaka á og dunda sér við bakstur eða spila borðleiki í enda dags með tebolla. Julie vill læra nýtt tungumál, kynnast fólki og nýjum vinum og mynda sterk tengsl við fósturfjölskyldu sína. Hún vill vaxa og dafna í gegnum þessa upplifun og hlakkar til þess að hitta fósturfjölskyldu sína og kynnast landi þeirra og menningu!

Louis Tom Theron profilo

Louis

Louis er 17 ára strákur frá Frakklandi.  Hann býr hjá foreldrum sínum og tveimur eldri systrum. Hann lýsir sér sem félagslyndum, forvitnum og skemmtilegum karakter. Hann nýtur hvers kyns útiveru eins og skíði, klifur og fjallgöngu ásamt fjölskyldunni. Auk þess  sem hann tekur þátt í starfsemi klifurhóps með félögum á sama aldri. Hans helsta áhugamál er geimvísindi. Hann er skipulagður og finnst betra að fara rólega í hlutina til að framkvæma af kostgæfni. Hann hlakkar til að kynnast nýju landi, landslagi og menningu.

Anna Kuchtíková profilo

Anna

Anna er 17 ára frá Tékklandi. Hún býr með foreldrum sínum og eldri bróður og yngri systur. Hún er mikill lestrarhestur, les alls konar bækur og finnst gaman að horfa á kvikmyndir og taka ljósmyndir, gera myndbönd sjálf og tekur þátt í íþróttum. Var í fimleikum og fótbolta en er nú að æfa júdó. Hún er líka mjög listræn og alltaf að skapa einhverja list, t.d. að teikna og mála myndir. Hún skrifar líka mikið, t.d. fyrir skólablaðið sitt og er aðstoðarritstjóri þess. Hún er virk í skólaráði skólans síns og hefur verið með á fundum skólaráða um allt Tékkland. Henni finnst gott að hafa nóg að gera. Henni finnst líka gott að slaka á og vera með fjölskyldunni sinni. Fjölskyldan fer á hverju ári í skíðaferð, en hún er á snjóbretti og finnst það mjög skemmtilegt. Fjölskyldan ferðast líka mikið utan og innanlands og fara í fjallgöngur saman. Fólk segir að hún sé góð með börnum, hún hefur unnið sem leiðbeinandi í sumarbúðum fyrir börn. Hún hlakkar til að kynnast sögu Íslands og goðafræðinni. Hún er aðeins byrjuð að læra íslensku sjálf. Skólinn hennar gefur henni mjög góð meðmæli, hún er dugleg, vingjarnleg og opin. Hún tekur virkan þátt í skólaráði skólans síns og alltaf tilbúin að aðstoða við fjölbreytt verkefni og hægt að treysta á hana.