Stórfenglegar strendur við Kyrrahafið og Karabíska hafið, fjöll, eldfjöll, fossar, stöðuvötn og eyjar. Kosta Ríka er einstaklega umhverfisvænt land sem leggur ríka áherslu á viðhald og verndun náttúruauðlinda sinna. Kostaríkabúar eru yfirleitt stoltir af landi sínu og uppruna, vingjarnleg og fjölmenningarleg þjóð sem elskar að kynna menningu sína og félagslíf fyrir gestum. Pura vida (njóttu lífsins) eru einkennisorð landsmanna. Kosta Ríka er ekki með her, sem sýnir vel hversu mikils Kostaríkabúar meta sáttfýsi, frið og frelsi í stjórnmálum.
Ungmennin hér njóta þess að fara í bíó, út að dansa og í heimsókn hvert til annars. Íþróttir eru gríðarlega vinsælar, ekki síst fótbolti. Og ekki missa af kjötkveðjuhátíðum sem haldnar eru um allt landið. Þar gefst frábært tækifæri til að drekka í sig menningu þjóðarinnar með nýjum vinum!