Stórfenglegar strendur við Kyrrahafið og Karabíska hafið, fjöll, eldfjöll, fossar, stöðuvötn og eyjar. Kosta Ríka er einstaklega umhverfisvænt land sem leggur ríka áherslu á viðhald og verndun náttúruauðlinda sinna. Kostaríkabúar eru yfirleitt stoltir af landi sínu og uppruna, vingjarnleg og fjölmenningarleg þjóð sem elskar að kynna menningu sína og félagslíf fyrir gestum. Pura vida (njóttu lífsins) eru einkennisorð landsmanna. Kosta Ríka er ekki með her, sem sýnir vel hversu mikils Kostaríkabúar meta sáttfýsi, frið og frelsi í stjórnmálum.

Ungmennin hér njóta þess að fara í bíó, út að dansa og í heimsókn hvert til annars. Íþróttir eru gríðarlega vinsælar, ekki síst fótbolti. Og ekki missa af kjötkveðjuhátíðum sem haldnar eru um allt landið. Þar gefst frábært tækifæri til að drekka í sig menningu þjóðarinnar með nýjum vinum!

 

Fólk og samfélag

Flestir skiptinemar dvelja hjá fósturfjölskyldum utan höfuðborgarinnar. Stórfjölskyldan er mjög náin í Kosta Ríka og því geta skiptinemar átt von á því að eignast mjög stóra fjölskyldu. Samverustundir fjölskyldunnar skipta miklu máli.

Skóli

Skiptinemar AFS ganga í almenna skóla í Kosta Ríka. Skólaárið er frá febrúar og fram í desember og allir nemendur eiga að vera í skólabúningum. Skólakerfið, rétt eins og samfélagið allt, er fremur afslappað. Allir nemendur eiga þess kost að stunda íþróttir á skólatíma eða sinna margvíslegum áhugamálum.

A photo posted by Clara Aiello (@_harley_97) on

Tungumál

Opinbert tungumál Kosta Ríka er spænska en margir heimamenn tala líka ágæta ensku. Ekki er gerð krafa um spænskukunnáttu fyrir brottför en allur undirbúningur mun hjálpa heilmikið.

Matur

Kartöflur, egg, maís, hrísgrjón, baunir og mjólkurvörur eru megin uppistaða hefðbundinnar fæðu í Kosta Ríka. Stundum er boðið upp á kjöt eða fisk en það er ekki algent. Það besta við matinn í Kosta Ríka er þó tvímælalaust grænmetið og fersku ávextirnir.

Skoða skiptinám í Kosta Ríka