Uppgötvaðu blöndu aldagamalla hefða og nútímans; forn musteri, himinháir skýjakljúfrar, litríkur götumatur, glæsilegar keisarahallir, einstök náttúra og æviforn pagodas hof.

Líkt og hjá flestum ungmennum í Kína mun helsti fókus þinn að öllum líkindum verða námið og skólinn, en skólinn er líka frábær staður til að eignast vini sem vilja deila menningu sinni með þér. Kínversk ungmenni hittast gjarnan heima hjá hvoru öðru og eyða tíma saman, fara í bíó, að dansa, horfa á sjónvarpið eða spila íþróttir, þá helst fótbolta, körfubolta og borðtennis. Foreldrar taka almennt mikinn þátt í lífi barna sinna og því skaltu alltaf tala við fjölskylduna þína áður en þú ákveður að fara út.

Fjölskylda og samfélag

Þú munt að öllum líkindum búa í austur eða suður Kína. Einhverjir skiptinemar búa í stórum borgum eins og Shanghai, Tianjin og Beijing en flestir eru í minni borgum svo sem Jiangsu, Sichuan, Anhui, Heilongjiang og Guangdong. Fjölskyldur sem búa í borgum búa gjarnan í blokkaríbúðum og er algengt að ömmur og afar búi með fjölskyldunni. Fjölskyldan gegnir stóru hlutverki í lífi hins almenna kínverja og er því mikilvægt að verja tíma með fósturfjölskyldunni sinni. Að sýna virðingu er mikilvægt kínverjum og er mikilvægt að virða hið félagslega stigveldi og eiga friðsæl og átakalaus samskipti.

Skóli

Þú munt líklega fara á senior 1 stig mennaskóla og vera með sérstaka stundatöflu sem hentar þér sem skiptinema. Þetta þýðir að þú munt vera með áherslu á kínverska tungu, menningu, sögu, list og tónlist ásamt öðrum skiptinemum fyrri helming dagsins, en seinni hluta dagsins munt þú vera í tímum með öðrum kínverskum nemum. Hefðbundinn skóladagur byrjar um 7:30 og lýkur um 16:30 og er skóli frá mánudegi til föstudags. Í Kína krefjast flestir skólar að nemar gangi í skólabúningi. Foreldrar taka mikinn þátt í menntun barna sinni og sjá þau til að heimanám og aðrar skyldur gagnvart skólanum gangi fram fyrir allt annað.

Tungumál

Í Kína eru 55 mismunandi þjóðarbrot, hvert og eitt með sitt eigið tungumál eða mállýsku. Mandarín kínverska er hins vegar töluð af rúmlega 70% kínverja (og í flestum skólum), þú gætir þó fengið fjölskyldu sem talar kantonsku. AFS sjálfboðaliðar og skólinn þinn munu aðstoða þig með tungumálið fyrst um sinn og færð þú tungumálakennslu fyrstu mánuðina. Þú ættir að vera með grunn í ensku fyrir brottför, en einnig er sniðugt að byrja að læra kínversku áður en þú leggur af stað í skiptinámið.

Matur

Máltíðir í Kína byggja yfirleitt á grænmeri, hrísgrjónum, núðlum og kjöti. Hefðbundinn kvöldverður er t.d. Pekingönd (steikt önd í sætri hveitisósu vafin í þunna pönnuköku), mongolian hotpot (kínversk útgáfa af fondú), jiaozi (dumplings með svínakjöti, graslauk og lauk) ásamt ýmsum tedrykkjum. Skemmtu þér að fullkomna tæknina við að borða með prjónum með aðstoð nýju fjölskyldunnar og vina. Athugaðu að það getur reynst erfitt að vera grænmetisæta eða vegan í Kína þar sem algengt er að kjöt sé notað sem bragðbætir, jafnvel þegar kjötið sjálft er ekki hluti af réttinum.

Skoða skiptinám í Kína