Austurríki er land með óteljandi möguleika, allt frá sögufrægum borgum á borð við Vínarborg til ævintýralegs útsýnisins frá tindum Alpanna. Austurríkismenn eru þekktir fyrir Gemutlichkeit, sem er þeirra einstaka leið til að njóta alls sem lífið hefur upp á að bjóða, hvort sem það eru listviðburðir, íþróttaviðburðir eða bolli af rótsterku kaffi. Austurríkismenn eru beinskeyttir í tali og hafa yndi af að ræða dægurmál og umhverfismál af kappi. Heilbrigður lífsstíll, tónlist í öllum sínum birtingarmyndum, hvort sem fólk kýs að njóta tónlistar sem áheyrandi eða sem flytjandi, og að sjálfsögðu gönguferðir – Spaziergänge – eru allt vinsæl afþreying í Austurríki. Í aldanna rás hefur Austurríki ævinlega gengt lykilhlutverki sem miðlægt Evrópuríki. Landið hefur tengt saman menningarheima, verið fundarstaður í hjarta Evrópu og vettvangur menningarlegra samskipta.
Austurrísk ungmenni kjósa helst að eyða frístundunum með félögunum heima fyrir, á kaffihúsum, kvikmyndahúsum, dansstöðum eða með þátttöku í æskulýðsstarfi og samfélagsstarfi. Vinsælustu íþróttirnar í landinu eru fótbolti, hjólreiðar og skíðaíþróttir.