Frá Argentínu til Belgíu

– Ár AFS skiptinema á COVID tímum –

 

Ég hef alltaf verið spenntur fyrir skiptinámi. Mamma var skiptinemi í Austurríki fyrir skrilljón árum og  hún talar þýsku og á vini í Austurríki sem hún er ennþá í sambandi við. Hún talar mikið um árið sitt þar. Mig langaði að læra nýtt tungumál, mér fannst líka mjög spennandi að fara í aðra menningu og upplifa eitthvað alveg nýtt. Þroskinn sem fylgir því er ómetanlegur.

Það hræddi mig mikið að fara í skiptinám, enda risastór ákvörðun og mig langaði oft að hætta við áður en ég fór. Það sem dreif mig hins vegar áfram var að það hræddi mig meira að hætta við heldur en að fara út því ég vissi af hverju ég myndi missa.

Ég sótti um að fara til Argentínu og lagði af stað til þangað í febrúar 2020. Þegar ég var búinn að koma mér vel fyrir fékk ég þær fréttir að senda þyrfti mig heim. Það var mikið áfall því mig var búið að dreyma um skiptinám í mörg ár. Ferlið var mikill tilfinningarússíbani, m.a. vegna þess að þegar ég var búinn að búa mig undir það andlega að fara aftur heim þá tilkynnti AFS í Argentínu mér að ég myndi ekki komast því allar samgöngur lægju niðri. Þau voru hálfpartinn búin að gefast upp á aðstæðunum en AFS á Íslandi og fleira gott fólk gerði allt til að koma mér heim sem tókst að lokum. Í góðu samstarfi við AFS á Íslandi var svo hægt að koma mér aftur út og í þetta sinn til Belgíu.

Ég er alveg að klára skiptinámið mitt í Belgíu og ég get vottað það að Belgía er frábært land. Belgía er mjög miðsvæðis og með gott lestarkerfi, þannig það er auðvelt að ferðast. Í Belgíu eru ótrúlega fallegar gamlar borgir stútfullar af sögu og menningu. Svo er hér að finna heimsins bestu vöfflur, súkkulaði og franskar (belgískar) kartöflur.

Árið mitt hér er næstum búið og hingað til hefur það verið alveg frábært, þrátt fyrir erfiðar aðstæður í heimsfaraldrinum. Ég var gríðarlega heppinn með fósturfjölskyldu sem hefur verið ótrúlega dugleg að ferðast innanlands og næra áhuga minn á sögu, til dæmis á söfnum um heimsstyrjaldirnar. Veitingastaðir og barir voru lokaðir þannig ég gat takmarkað hitt vini og varði því miklum tíma með fjölskyldunni. Það sem ég mun helst muna eftir eru góðar stundir þeim.

Það var mikill munur á því að koma til Argentínu eða til Belgíu. Sérstaklega í sambandi við að eignast vini. Í Argentínu leit ég öðruvísi út en allir hinir, ljós yfirlitum, og var þar af leiðandi spennandi fyrir þeim. Ég þurfti ekki að hafa mikið fyrir því að eignast vini. Ég sá hins vegar mjög fljótlega í Belgíu, sem er mikill menningarpottur, að ef ég vildi eignast vini þá þyrfti ég að eiga frumkvæðið að því að tala við þá.

Argentína er suðrænt land og menningin í samræmi við það. Flestir mjög opnir og hlýir og það höfðaði sterkt til mín. Í Argentínu sá ég líka hluti eins og hús, götulíf og fleira sem ég hafði bara séð í bíómyndum, sumt jákvætt annað neikvætt en allt áhugavert. Belgía er týpískt Evrópuland með evrópska menningu og siði með sérstæður hér og þar eins og einkennandi rétti, bjór og list. 

Ég er mjög sáttur við skiptinemareynsluna mína þó að ég hefði gjarnan viljað eignast fleiri vini og þó árið hafi verið mjög skrítið. Heima hefði ég líka þurft að vera mikið heima, lítið að hitta krakka og hefði tekið stóran hluta námsins á netinu. Hér hef ég þó lært nýtt tungumál, kynnst nýrri menningu og eignast nýja fjölskyldu. Ég hlakka til að fara heim en Belgía mun alltaf eiga risastóran stað í mér.