Í byrjun árs gáfu Alþjóðasamtök AFS út nýja alþjóðlega rannsóknarskýrslu eftir tveggja ára rannsóknarvinnu. Markmiðið með könnuninni var að kanna svokölluð „AFS áhrif“. Skýrsla ber titilinn „Að skapa alheimsborgara: AFS áhrifin“ (e. “Creating Global Citizens: The AFS Effect”) og byggir á svörum 10.500 þátttakenda sem hafa farið í AFS skiptinámi frá 80 löndum um allan heim.
Áhrif á íslenska nema
Könnunin var send út á fyrrum skiptinema og félaga hérlendis. Þátttaka var góð og náði til víðs aldurshóps. Elsti þátttakandinn fór í skiptinám 1959 og sá yngsti árið 2018. Þátttakan á Íslandi var góð og tóku 126 fyrrum AFS nemar könnunina.
Ýmsar áhugaverðar niðurstöður má lesa úr gögnunum. Samkvæmt niðurstöðum frá Íslandi hefur AFS í gegnum árin náð sínum helstu markmiðum með skiptináminu.
Niðurstöður könnuninnar á áhrifum skiptináms á íslenska nema sýna að:
- 93% AFS skiptinema telja að þeir hafi styrkt hæfni sína í alþjóðasamskiptum.
- 96% AFS skiptinema telja að þeir hafi aukið aðlögunarfærni sína og sveigjanleika.
- 92% AFS skiptinema öðlast aukið sjálfstraust.
- 97% AFS skiptinema telja að skiptinámið hafi aukið víðsýni þeirra og hæfileika í samskiptum við aðra.
- 88% AFS skiptinema auka færni sína í flókinni lausnaleit.
- 94% AFS skiptinema hafa aukið skilning sinn á mikilvægi fjölmenningarsamfélagsins.
- 68% AFS skiptinema telja sig hafa styrkt leiðtogahæfni sína.
- 71% telja að AFS skiptinám hafi hvatt þau til frekari virkni í nærsamfélaginu
- 97% AFS skiptinema tala annað tungumál reiprennandi.
Hér eru niðurstöður íslensku þáttakendanna.
Aðrar rannsóknir sem gerðar hafa verið hérlendis
Þetta er ein stærsta könnun sem gerð hefur verið á áhrifum AFS skiptináms á alþjóðavísu. Áður hefur AFS á Íslandi í samstarfi við stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, Hollvini AFS á Íslandi og Dr. Hallfríði Þórarinsdóttur skoðað áhrif skiptináms með eigindlegri rannsókn sem gerð var á íslenskum og erlendum nemum hérlendis á árunum 2015-16, „Get ég sett mig í þín spor? Reynsla af því að vera skiptinemi“. Af öðrum rannsóknum sem gerðar hafa verið í háskólum hérlendis ber helst að nefna meistaraverkefni við Háskóla Íslands 2015. Sólrún Helga Guðmundsdóttir kennari rannsakaði þá hugtakið heimsborgaraauður (e. Cosmopolitan Capital) í sambandi við menntunartækifæri íslenskra ungmenna. Hún framkvæmdi eigindlega rannsókn á tveimur hópum. Nemum sem fóru í stutt nemendaskipti og nema sem fóru í AFS skiptinám í eitt ár. Niðurstöður sýndu marktækan mun á auknu sjálfstæði og sterkari sjálfsmynd hjá AFS nemum.
Á tímum alþjóðavæðingar og með aukinni samkeppni verður mikilvægara fyrir AFS samtökin að geta sýnt fram á með skýrum hætti þá færni sem nemar öðlast í skiptináminu. Hvað er svona frábært við það að fara í skiptinám? Fyrir utan þetta ævintýri sem allir tala um. Enn fremur er mikilvægt að koma orðum að þessari óformlegu menntun sem nemarnir öðlast til þess að geta sett þessa færni í fastari ramma fyrir t.d. skólasamfélagið. Þessi rannsókn er stór liður í því.