Bandaríkin eru innflytjendaland og fjölbreytni mannlífsins er gríðarleg, hvort sem er í menningu, tónlist, matargerð eða íþróttaiðkun. Í Bandaríkjunum má finna um það bil allar gerðir af landslagi, loftslagi og landsvæðum sem hægt er að hugsa sér. Dægurmenningin er áberandi alls staðar, íþróttir og nýjustu fréttirnar eru vinsæl umræðuefni á mannamótum og hefðir og siðvenjur eru gríðarlega mismunandi, allt eftir svæðum, þjóðernisuppruna og trúarbrögðum. Ákaflega erfitt er að koma með ráðleggingar um hvað er skemmtilegast að gera og skoða í landi þar sem hver einasti bær, úthverfi eða borg stærir sig af einstakri menningu, byggða á sérkennum, aðstæðum og lífsstíl á hverjum stað.
Menntaskólinn er miðpunkturinn í lífi ungmenna víðast hvar í Bandaríkjunum en samfélagið á hverjum stað og ýmis trúfélög bjóða einnig upp á klúbbastarf (allt frá leiklist til taflmennsku), sjálfboðastarf og margs konar tómstundastarf fyrir börn og ungmenni. Hópíþróttir eru mjög vinsælar og eftir skóla fara margir nemendanna beint á æfingu. Amerískur fótbolti, evrópskur fótbolti, hlaupaíþróttir, hafnabolti, sund, blak og klappstýrufimi eru yfirleitt vinsælustu íþróttagreinarnar. Íþróttakappleikir menntaskólaliðanna laða til sín fjölda áhorfenda á öllum aldri. Og um helgar er farið í partý, rápað í búðir eða bara slakað á með vinunum. Margar fjölskyldur leggja ríka áherslu á nám barnanna (enda hörð samkeppni um aðgang að góðum háskólum), en foreldrar hvetja unglinga sína líka til að skemmta sér og vera með vinunum.