Ungverjaland er stolt af uppruna sínum og stöðu sinni á mótum austurs og vesturs. Höfuðborgin er hin gullfallega Búdapest, sem áður var þekkt sem „París austursins“. Hin tignarlega Dóná rennur um flatlendar sveitir með fjöll og hæðir í fjarska og landslagið er einstaklega fallegt. Ungverjar halda margs konar hefðbundnar hátíðir sem oft snúast að miklu leyti um mat.
Ungverskir unglingar taka námið alvarlega og leggja hart að sér fyrir lokaprófin, sem skipta miklu máli þegar kemur að því að sækja um háskóla. Í frístundum eru margir í æskulýðsstarfi á vegum skóla eða sveitarfélaga, svo sem íþróttafélögum (fótbolti, körfubolti og blak eru mjög vinsælar íþróttir) eða klúbba þar sem þau æfa leiklist, þjóðdansa eða tónlist. Um helgar getur þú skroppið í bíó eða í partý eða bara kíkt við heima hjá einhverjum vinanna til að spjalla.