Danmörk er skagi út á Norðursjóinn, með yfir 400 smáum og stórum eyjum allt um kring. Þetta notalega land á norðurhveli Jarðar er tenging á milli Skandinavíu og meginlands Evrópu og þar blandast nútímalegar heimsborgir við einfalda, hefðbundna byggingarlist í norrænum stíl, lítil ævintýraþorp með markaðstorgum, sveitakirkjur og kastala. Landið er flatt og einkennist af mýrlendi, stöðuvötnum, ökrum og skógum. Mikið er um göngugötur sem henta frábærlega fyrir hjólreiðar og til að tylla sér á kaffihús og spjalla við vinina. Danir vilja gjarnan búa sér falleg heimili og vilja hafa notalegt og þægilegt í kringum sig – í anda þess sem þeir nefna hygge, en mætti kalla „kósíheit“ á íslensku.
Um helgar halda unglingarnir oft partý, hanga á kaffihúsum og fara í bíó. Fótboltinn er langvinsælastur, en þú verður að prófa sund, siglingar eða róður, enda verður þú aldrei í meira en klukkutíma fjarlægð frá sjávarsíðunni.