Gleðilegt nýtt ár!!
Við hjá AFS óskum öllum landsmönnum heilsu, farsældar og friðar á nýju ári ❤
Velkomin Eva Hlín
Sæl öllsömul.
Ég heiti Eva Hlín og var að koma til stafa sem verkefnastjóri á sviði nema hjá AFS á Íslandi. Ég er einstaklega spennt fyrir starfinu og að koma að þessum frábæru félagasamtökum. Ég sjálf hef ekki haft beina tengingu við AFS áður, en hef farið í skiptinám á háskólastigi frá Háskólanum á Bifröst. Árin 2012-2013 bjó með fjölskyldunni minni í eitt ár í Japan, og stundaði háskólanám við Otaru University of Commerce. Áður hafði ég starfað á Ítalíu í eitt ár þegar ég var í kring um tvítugt og smávegis í Noregi rétt eftir tvítugt. Í grunninn er ég menntaður viðskiptafræðingur með áherslu á markaðssamskipti og er að ljúka mastersnámi í verkefnastjórnun frá Háskóla Íslands.
Að dvelja í Japan var mér einstaklega dýrmætt og ég öðlaðist mikið menningarlæsi með að fá að upplifa gjörólíka menningu. Ekki aðeins kynnist maður menningu hýsingarlands heldur líka menningu annarra skiptinema sem eru samferða í gegn um ferlið. Að búa erlendis og vera fjarri öllu sem er kunnuglegt er sú reynsla sem hefur mótað mig sem mest sem manneskju. Það er þroskandi og erfitt en að sama skapi svo skemmtilegt og styrkjandi. Að uppskera fjölmenningarlegan vinahóp er svo gjöf út í lífið á fjölmarga vegu. Ferðalög, heimsóknir og samskipti. Upplifanir og stórt tengslanet. Allt þetta skiptir máli og hefur haft jákvæð áhrif á mitt líf.
Ég hef lengi verið viðloðandi félagasamtök sem starfa af hugsjón og án hagnaðarsjónarmiða. Ég brenn fyrir að stuðla að jákvæðu samfélagi og hef reynt að leggja mitt af mörkum með því að finna uppá menningarviðburðum og skemmtilegheitum. Látið ykkur því ekki bregða ef þið fáið boð á viðburði eftir að Kófinu linnir.
Ég hlakka mikið til að vera í samskiptum við ykkur öll, nýja skiptinema, foreldra, sjálfboðaliða, hollvini og aðra sem standa að baki AFS. Innan samtakanna hefur verið unnið mjög gott og mikilvægt starf sem mig hlakkar til kynnast betur og kynna fyrir fleirum.
Sjáumst hress!
Kveðja, Eva Hlín Alfreðsdóttir
AFS kynningar
Stór partur af starfi AFS hefur í áratugi verið að sjálfboðaliðar heimsækja skóla og kynna þar prógrömmin sem í boði eru og segja frá sinni AFS skiptinemareynslu. Vegna fjöldatakmarkana hafa þessar kynningar nú verið færðar á netið. Tvær “skólakynningar” voru haldnar á Instagram í desember (þær eru ennþá aðgengilegar fyrir áhugasama) og svo stóð skrifstofa fyrir kynningarfundi á Zoom í byrjun árs.
Undirbúningsnámskeið 2021
Síðustu helgi (9.-10. janúar) héldum við undirbúningsnámskeið fyrir nemana okkar sem eru á leiðinni út á næstu vikum. Það var svo sannarlega fagnað þegar okkur var tilkynnt að námskeiðið yrði haldið á skrifstofu AFS í stað Zoom (eins og undanfarin námskeið hafa verið). Undirbúningsnámskeiðið er mikilvægur liður í skiptináminu og eins og nafnið gefur til kynna snýst það fyrst og fremst um að undirbúa nemana eins vel og við getum fyrir komandi ævintýri. Þeir fá að kynnast ýmsum krefjandi aðstæðum sem þeir gætu lent í, læra að átta sig á væntingum og búa sig undir ýmsar uppákomur sem er algengt að komi upp meðan dvölinni stendur. Á sama tíma fá þau að kynnast hvort öðru og okkur sjálfboðaliðunum, sem er alltaf mikið fjör. ?
Sökum takmarkanna var hópnum skipt í tvennt, annar hópurinn kom á laugardeginum og hinn á sunnudeginum. Það var vissulega ákveðin áskorun að halda námskeið með þessu óhefðbundna sniði en sjálfboðaliðar og nemar stóðu sig einstaklega vel í að sinna sóttvörnum, enda flestir orðnir vanir því að halda fjarlægð og spritta. ? Námskeiðið gekk mjög vel báða dagana og okkur fannst frábært hvað allir voru hressir og virkir í þátttöku. Þrátt fyrir óhefðbundið námskeið heppnaðist allt saman mjög vel og við vitum að nemarnir eru stútfullir af nýjum fróðleik og færni sem á eftir að koma að góðum notum á meðan dvölinni stendur. Við erum viss um að þessi flotti hópur eigi eftir að standa sig með prýði í skiptináminu og óskum þeim öllum góðs gengis!
Fyrstu brottfarir ársins
Síðastliðinn sunnudag, þann 10. janúar, lagði fyrsti skiptinemi ársins af stað frá Íslandi. Hún mun verja næstu þremur mánuðunum hjá fósturfjölskyldunni sinni á Ítalíu og var hún fyrst 8 íslenskra nema til að hefja sína dvöl þetta vorið. Þetta er alltaf spennandi tími og erum við afar stolt af þessum flotta hóp sem eru að leggja á vit ævintýranna og halda af stað til að kynnast nýrri fjölskyldu, skóla, menningu og landi á næstu mánuðum.
Ný auglýsingaherferð AFS, byggð á alþjóðlegri rannsóknarskýrslu um AFS-áhrifin ❤️
Við hjá AFS keyrum nú af stað með skemmtilega auglýsingaherferð sem unnin var úr svörum alþjóðlegrar rannsóknarskýrslu sem gefin var út fyrir rúmu ári síðan og byggir á svörum 10.500 þátttakenda AFS í 80 löndum um allan heim.
Markmið rannsóknarinnar var að kanna svokölluð AFS-áhrif. Þátttaka var góð og sérstaklega hér á Íslandi þar sem elsti þáttakandi fór í skiptinám 1959 og sá yngsti 2018.
Lengi hefur verið reynt að koma orðum að því hvaða þekkingu fólk nákvæmlega öðlast í AFS skiptinámi. Okkur þykir þessi herferð komast nálægt því að útskýra þessi AFS-áhrif sem allir skiptinemar tala um. Hvað finnst þér? Endilega lækaðu og deildu.
Fyrir ykkar sem hafa áhuga á að lesa skýrsluna í heild sinni er hægt að finna hana á heimasíðu AFS International hér.
Hér eru niðurstöður íslensku þátttakenda.