Velkomin Anke
AFS hefur um nokkra ára skeið tekið á móti sjálfboðaliðum í gegnum Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins. Nú er komin til okkar Anke, sjálfboðaliði frá Hollandi sem ætlar að vera hjá okkur í 12 mánuði. Þetta er hluti af European Solidarity Corpse verkefni sem sótt er um í gegnum Rannís. Hér má lesa kveðju frá Anke.
Árshátíð sjálfboðaliða
“Síðasta laugardag var árshátíð sjálfboðaliða haldin hátíðleg. Margar hefðir hafa skapast í kringum þennan viðburð í gegnum árin. Ein af þeim hefðum er sú að árshátíðin er alltaf með ákveðið þema sem að í ár var söngleikir! Ég hef farið á nokkrar árshátíðir í gegn um árin en ég verð að segja að þessi var ein sú metnaðarfyllsta. Skrifstofan var full af nokkrum Mary Poppins, Sandy úr Grease og nánast öllum persónum Ávaxtakörfunnar. Skemmtilegheitin byrjuðu strax klukkan tvö með hópefliskeppni með söngleikja ívafi þar sem að liðin Greasirnir 6 og Mia Mamma! kepptu. Um kvöldið var svo indælis þriggja rétta máltíð (án allra dýra afurða auðvitað). Skemmtiatriðin voru heldur ekki af verri endanum: við kepptumst við að bera kennsl á finnskar ábreiður af vinsælum lögum, dregið var úr viðtala og skólakynninga lukkupottinum og síðast en ekki síst þá var árshátíðar myndbandið árlega frumsýnt. Þetta kvöld var hið skemmtilegasta og endaði með dansi í góðra vina hópi langt fram á nótt. Takk fyrir kvöldið og daginn allir sem mættu.” – Hildur Ýr, sjálfboðaliði.
Heimkomunámskeið + Sjálfboðaliðanámskeið
Helgina 15. og 16. febrúar héldu sjálfboðaliðar Reykjavíkurdeildar AFS og IPOT (Icelandic Pool of Trainers) annarsvegar heimkomunámskeið og hinsvegar sjálfboðaliðanámskeið. Hér má lesa meira um það fyrra og hér um það seinna.
Staða fósturfjölskylduöflunar
Nú hafa nær allar umsóknir frá skiptinemum borist. Það verður töluverð aukning á fjölda nema í ár en í fyrra hýstum við 31 nema og ár verða þeir líklega 40 talsins. Við teljum að þessa aukningu megi rekja til þess að Norðurlöndin hafa minnkað hýsinguna sína og hafa því samstarfslönd okkar ákveðið að fylla öll pláss sem er eitthvað sem hefur ekki gerst áður.
Jákvæðu fréttirnar eru að fjórar fósturfjölskyldur eru staðfestar en við verðum öll að leggja okkar á vogarskálarnar til að tryggja öllum þessum nemum heimili fyrir komu. Eins og síðast viljum við hvetja alla til að deila öllum fréttum og lýsingum af nemum svo við getum náð til sem flestra. Það eru lýsingar af yfir 30 nemum inni á heimasíðunni okkar. Ef þið teljið að þið gætuð aðstoðað við þetta verkefni þá myndi ég gjarna vilja heyra frá ykkur: [email protected]
Eins ef þið eruð með góðar hugmyndir, aðgengi að bæjarsíðum á Facebook og annað slíkt sem gæti hjálpað okkur í leitinni af fósturfjölskyldum, endilega heyrið í mér eða smellið á mig línu. Hér má finna lýsingar af þeim nemum sem komnir eru inn á heimasíðu AFS: https://www.afs.is/fosturfjolskyldur/skiptinemar-a-islandi-2020/
Umsóknarfrestir
Kominn er upp sá tími árs að nemar sem huga að skiptinámi að hausti þurfa að drífa í að sækja um. Fyrstu umsóknarfrestir eru þegar liðnir, en þó enn opið til fjölda landa. Tíminn er samt sem áður naumur og hvetjum við þau sem ákveðin eru að fara í skiptinám nú í ár að drífa í að senda inn frumumsókn til að tryggja sér pláss.
Næstu umsóknarfrestir eru:
- 2. mars: Belgía, Finnland, Malasía, Pólland
- 4. mars: Spánn
- 12. mars: Japan
- 17. mars: Argentína, Brasilía, Frakkland, Indónesía, Ítalía, Noregur, Portúgal, Rússland, Slóvakía, Tékkland, Ungverjaland, Úrúgvæ
Hægt er að sækja um hér og tekur frumumsókn um 15 mínútur.
Ef þú vilt kynna þér málið nánar hvetjum við þig til að kíkja á afs.is, heyra í okkur í síma 552-5450 eða senda okkur línu í tölvupósti á [email protected] eða Facebook AFS á Íslandi.