Laugardaginn 15. febrúar var haldið Heimkomunámskeið AFS á skrifstofu samtakanna í Reykjavík. Á námskeiðinu hjálpuðu sjálfboðaliðar ný-heimkomnum skiptinemum að gera upp dvölina sína og skoða hvernig reynslan af skiptináminu getur reynst þeim nú þegar heim er komið. Nemarnir hafa verið mislengi heima en sum komu heim í desember en önnur fyrir rétt um tveimur vikum. Einnig var einn þáttakandi sem kom heim síðasta sumar en komst ekki á sitt heimkomunámskeið þá.
Heimkomunámskeiðið er mikilvægur partur af skiptináminu. Á því hitta þau aftur vini sem þau eignuðust á undirbúningsnámskeiðinu og fá að tala um skiptinámið við aðra nema og sjálfboðaliða sem skilja hvað þau hafa upplifað og hafa endalausa löngun til að hlusta. Það var sérstaklega gaman að einn þátttakandi frá Neskaupstað og einn frá Akureyri gátu komið.
Sjálfboðaliðar Reykjavíkurdeildar sáu um námskeiðið, undirbjuggu og framkvæmdu alla liðina og voru með frá morgni til kvölds. Þetta var reglulega skemmtilegur dagur þar sem djúpar umræður fóru fram og margar minningar voru gerðar upp.