Stjórn Hollvina AFS á Íslandi hefur samþykkt styrkveitingar til verðandi skiptinema sem halda utan til náms á komandi sumri. Samþykktir voru 4 styrkir, bæði til umsækjenda sem koma frá heimilum með erfiða fjárhagsstöðu, svo og til umsækjenda sem hafa sýnt framúrskarandi árangur í námi, listum, íþróttum og félagsstarfi. Heildarupphæð þessara styrkja er 1.700.000 kr.
Þá var úthlutað sérstökum styrk fyrir leiðtoga framtíðarinnar til þátttöku í skiptinámi á Ítalíu skólaárið 2020-2021. Upphæð styrksins er 1.194.000 kr. Margar framúrskarandi umsóknir bárust um þennan styrk og valið því ekki auðvelt. Þetta er í fyrsta sinn sem Hollvinir veita slíkan styrk, en honum er m.a. ætlað að vekja athygli á skiptinámi á Ítalíu, þar sem eitt af öflugustu AFS landsfélögum (Intercultura) starfar.
Fyrr á árinu veittu Hollvinir styrk að upphæð 150.000 kr. til skiptinema sem fór utan í byrjun árs 2020. Samtals nema samþykktar styrkveitingar Hollvina AFS á Íslandi á þessu starfsári 3.044.000 kr. og er það hæsta upphæð sem hefur verið samþykkt til úthlutunar á einu ári.
Hollvinir AFS á Íslandi er sjálfseignastofnun sem fyrrum skiptinemar, foreldrar skiptinema, hýsingarforeldrar og aðrir velunnarar AFS á Íslandi styðja við með föstu mánaðarlegu framlagi. Hollvinir voru stofnaðir 2013 og er markmið þeirra að styðja við nemendaskipti AFS á Íslandi með námsstyrkjum. Ráðstöfunarfé stofnunarinnar kemur frá framlögum Hollvina og ávöxtun fjárfestinga í eigu stofnunarinnar. Fyrstu 6 starfsárin veittu Hollvinir 50 nemendum styrki og nemur heildar styrkupphæð rúmlega 10 milljónum króna á tímabilinu. Ljóst er að hluti þeirra skiptinema sem hafa notið góðs af styrkjum Hollvina hefðu ekki getað tekið þátt í skiptinámi AFS nema vegna styrkveitinga frá Hollvinum. Auk þess hafa Hollvinir tvívegis styrkt sérstök rannsóknarverkefni sem tengjast nemendaskiptum AFS alþjóðlega.
Texti: Erlendur Magnússon, formaður Hollvina AFS