Undirbúningsnámskeið fyrir nema og foreldra
Fyrir hvern skiptinemahóp sem sendur er frá Íslandi bjóðum við tilvonandi skiptinemum og foreldrum þeirra á svokallað undirbúningsnámskeið. Vetrarbrottför, þegar skiptinemar fara af landi brott í janúar-, febrúar- eða mars- mánuði, er nú að renna upp og helgina 11-12. janúar mættu nemar sem eru nú að halda út í heim á undirbúningsnámskeið á skrifstofu AFS.
Á undirbúningsnámskeiði fá nemar tækifæri til að kynnast öðrum skiptinemum og fá fræðslu og verkfæri sem þau geta nýtt sér í skiptináminu sínu. Eins fá foreldrar fræðslu um hvernig þau geti stutt við sín börn í gegnum námið. Námskeiðið er mikilvægur liður í undirbúningi og stuðningi við skiptinema, auk þess sem skemmtilegt er að fá tækifæri til að mynda tengsl við aðra sem eru á leið í sama ævintýri.
Sjálfboðaliðar AFS eiga allan heiður af námskeiðinu og þökkum við þeim kærlega fyrir frábæra helgi!
Kynningarfundur á skrifstofu AFS
Kynningarfundur var haldinn á miðvikudaginn síðasta fyrir þá sem áhuga hafa á að kynna sér AFS skiptinám. Það var afar góð mæting þrátt fyrir að landsliðsleikur Íslands við Ungverjaland hafi verið á sama tíma og mættu rúmlega 10 ungmenni og foreldrar þeirra til að kynna sér skiptinám með AFS. Það var góður hópur sjálfboðaliða sem komu og ræddu við tilvonandi nema og foreldra og má með sanni segja að þessi fundur hafi verið skemmtilegur og vel heppnaður. Innilegar þakkir sjálfboðaliðar, fyrir að koma og ræða við tilvonandi nema.
Sérstök áhersla var á að kynna námsstyrki sem Hollvinir AFS bjóða upp á. Meira má lesa um í þessari færslu og á heimasíðunni okkar.
Vegna þessa mikla áhuga á skiptinámi höfum við ákveðið að vera með auka kynningarfund þriðjudaginn 28. janúar. Endilega látið heyra í ykkur ef þið viljið vera með þá – það er hægt að melda komu á Facebook viðburðinum okkar hér! Einnig verið kynningarfundir 19. febrúar og 18. mars.
Nordic Leadership Development Programme
AFS á Íslandi er um þessar mundir að skipuleggja og taka þátt í Norrænni Leiðtogaþjálfun (Nordic Leadership Development). Verkefnið er unnið í samvinnu við AFS á Norðurlöndunum og AFS International og styrkt af Erasmus+.
Sjálfboðaliðar í stjórnum deilda og aðalstjórn samtakanna ásamt þjálfarahópnum IPOT (Iceland Pool of Trainers) var boðið að sækja um þáttöku og fór umsóknarferlið fram síðastliðið haust. Fimm sjálfboðaliðar taka þátt í verkefninu og eru þau annarsvegar frá Akureyri og hinsvegar frá Reykjavík.
Nú stendur yfir fjögurra vikna netnámskeið sem þáttakendur frá Íslandi sem og hinum Norðurlöndunum taka þátt í. Í því er farið yfir ýmiskonar efni sem tengist leiðtogaþjálfuninni og eru þáttakendur búnir undir að hittast á þriggja daga námskeiðið í Svíþjóð sem fram fer fyrstu helgina í febrúar. Þá munu þátttakendurnir fimm ásamt starfsmanni AFS halda til Svíðjóðar og kafa ennþá dýpra í fræðsluna.
Verkefnið endar ekki eftir Svíþjóðarferðina þar sem allir þáttakendur munu vinna verkefni þegar þau eru komin aftur heim til Íslands og mun það verkefni byggja á því sem þau hafa lært í leiðtogaþjálfuninni. Þau munu hafa mentor sem hjálpar þeim að halda sér við efnið og vinna verkefni sitt vel alla leið til enda.
Vonin er sú að þetta verkefni muni hafa jákvæð áhrif ekki bara á beina þátttakendur (sjálfboðaliðana fimm sem taka þátt) en líka á aðra sjálfboðaliða innan samtakanna sem munu vera með í verkefnunum sem fram fara eftir heimkomu.
Samvinna með AFS á Norðurlöndunum hefur aukist til muna á undanförnum misserum og sjáum við að mikinn ágóða er hægt að hafa af slíkri samvinnu. Sjálfboðaliðar samtakanna búa að miklu leyti við líkan raunveruleika í starfinu og oft er hægt að læra af hvort öðru, deila reynslu og efni.
Mikil spenna er fyrir þessu verkefni og við hlökkum til að segja ykkur meira frá því þegar námskeiðinu í Svíþjóð er lokið.