Vikuna 4.-8. mars s.l. fylltist smáborgin Amersfoort í Hollandi af AFSurum hvaðanæva frá. Aðdráttaraflið var tvíþætt þar sem fundur deildarstjóra nema (e. programme directors) og námskeið fyrir sjáfboðaliða um aukin samfélagsleg áhrif í gegnum skiptinám (e. Social Impact in and through Exchanges) samtvinnuðust í rigningu og roki hollenska vorsins.
Undirrituð fór fyrir hönd starfsmanna AFS á Íslandi á fund deildarstjóra nema og var bæði spennt og stressuð í bland að taka þátt fyrir hönd Íslands á þessum vettvangi í fyrsta skipti. EFIL, regnhlífasamtök AFS í Evrópu, heldur programme directors fund árlega og er hann vettvangur fyrir þau sem starfa við umsjón prógramma til að kynnast, læra af hvoru öðru, ræða og reyna að finna lausnir á sameiginlegum áskorunum og læra eitthvað nýtt. Á fundinn mættu því fulltrúar fjölmargra Evrópulanda, auk nokkurra góðra gesta sem komu lengra frá.
EFIL og AFS International leiddu virkilega áhugaverða dagskrá þar sem tækifæri gafst til að læra, deila og ræða um ýmis málefni, eins og t.d. stefnu samtakanna á alþjóðavísu, hvernig við getum aukið fjölbreytileika innan samtakanna, aukið áhrif og unnið að markmiði AFS um friðsamari heim. Einnig gafst tími til að eiga persónulega fundi við samstarfsfólk af öðrum skrifstofum til að ræða ýmis mál og liðka samskipti.
Þar sem fundurinn var samtvinnaður námskeiðinu “Social Impact in and through Exchanges” fengum við tækifæri til að kynnast þeirri vinnu sem sjálfboðaliðar voru að vinna þar. Við fengum tækifæri til að ræða saman um markmið AFS, og okkar allra, og hvernig við vinnum að því í gegnum starf okkar hjá samtökunum. Það var virkilega skemmtilegt og hvetjandi að sjá allar þær hugmyndir og áætlanir sem verið var að keyra í gegn, alltaf kemur það manni á óvart hvað við eigum flott fólk!
Fundurinn var allt í allt virkilega góður og að mér fannst mjög nytsamlegur. Ég lærði heilmikið um þá góðu hluti sem verið er að vinna ísamtökunum okkar hjá EFIL, International og í öllum samstarfslöndum okkar, sem og að ég fékk að deila minni þekkingu héðan frá Íslandi. Ég komst að því að þrátt fyrir hvað við erum ólík, þá erum við öll að vinna við sama veruleika og að sama markmiði. Við þurfum því að vera dugleg að tala saman og læra af hvoru öðru. Síðast en ekki síst var ómetanlegt að fá að hitta allt það góða fólk sem maður talar við í gegnum skjáinn á hverjum degi!
Ég hlakka því mikið til næsta fundar að ári!
Texti: Ásdís Björk Gunnarsdóttir, deildastjóri nema
Mynd: EFIL