Dagana 22 –24 febrúar var haldin Landsfundur AFS á Íslandi. Er það þá í þriðja sinn eftir endurvakningu þessa fundar sem hann er haldin. Þá er sá hátturinn á að skrifstofa, aðalstjórn og stjórnir deilda fái ráðrúm til að bera saman bækur sínar og komast saman að því hvert við viljum stefna. Ánægjulegt var frá hve mörgum deildum við vorum en þarna vorum við frá Reykjavíkurdeild, Vesturlandsdeild, Vestfjarðadeild og Norðurlandsdeild. Þá er viðeigandi að fara í sveitina, nánar tiltekið á Laugar í Sælingsdal þar sem við höfum verið öll þessi þrjú skipti. En það er formaður Vesturlandsdeildar og stórnarmeðlimurinn Jónína Guðmundsdóttir sem hefur tekið á móti okkur opnum örmum þangað og er gist í tvær nætur. Lykilatriði er að hafa meðferðis góðan mat (og þar að leiðandi kokk) en þar voru vel valin hjón sem voru að verki – Halli og Sólveig sem hafa gefið mörgum AFS-aranum gott að borða – og vil ég hér þakka sérstaklega honum Halla (Haraldi Emilsyni) fyrir að standa þá vakt.
Dagskráin var þétt og tíminn vel nýttur. Það var farið yfir þau atriði sem við viljum fara að leggja meiri áherslu á í sambandi við framtíðarsýnAFS, forgangsraða, tímasetja og finna nýjar hugmyndir. Skólakynningar og kynningarstarf almennt var ofarlega á blaði, styttri prógrömm, 18plús, gæði starfsins, samstarf við framhaldsskólana og fleira. Aðgerðaplan var útbúið. Forvarnahópur sem var myndaður af stjórnkynnti drög að nýrri forvarnastefnu samtakanna og voru miklar og góðar umræður um hana. Við ræddum þær áskoranir sem eru á hverju svæði fyrir sig og ferðalag sjálfboðaliðans (e. the volunteer journey). Þáttakendur voru sammála um að fundur sem þessi sé nauðsynlegur upp á samtal, þekkingu og yfirsýn. Við vorum sammála um að landsfundur 2019 hafi verið sá besti til þessa og ég hlakka mikið til að sjá hvaða ávexti hann munbera á næstunni. Ég er mjög montin og stolt af metnaðinum og mannauðinum sem þarna dvöldu saman þessa helgi. Takk <3
Texti: Halldóra Guðmundsdóttir, Formaður AFS á Íslandi
Myndir: Tinna Sveinsdóttir