EFIL, regnhlífar samtök AFS í Evrópu halda annað hvert ár fund fyrir það sem þau kalla Organisational Development Coordinators (ODC). Á Íslandi hefur þetta starf hlotið nafnið Fræðslustjóri. Markmið fundarins er að safna saman öllum þeim sem gegna sama hlutverki á skrifstofum AFS í Evrópu og víðar, gefa þeim tækifæri til að kynnast og læra hvort af öðru sem og skoða ný samstarfsverkefni, deila hugmyndum og gögnum og læra eitthvað nýtt.
Þar sem ég tók við starfi fræðslustjóra í desember 2017 var þetta fyrst ODC fundurinn sem ég mæti á. Ég hef þó verið viðloðandi þjálfanir og fundi í mörg ár (innan AFS, EFIL og víðar) og var ég því beðin um að vera í undirbúning- og þjálfarateyminu fyrir þennan fund. Ég ákvað að slá til þar sem það er frábær leið til að læra ennþá meira að vera í teyminu, kynnast hinum þjálfurunum og kafa ennþá dýpra í efni fundarins.
Eftir nokkra mánuði þar sem undirbúiningsteymið hittist á netinu með jöfnu millibili til að búa til dagskrá og hanna smiðjur hittumst við í Belgrade í Serbíu 3. Febrúar. Við höfðum einn dag til að klára loka undirbúning og svo mættu restin af þáttakendunum daginn eftir. Það var stíf dagskrá frá mánudegi fram á fimmtudag þar sem farið var yfir helstu áskoranir og tækifæri sem fræðslustjórar mæta í starfi sínu, skoðað hvað er framundan hjá EFIL og hjá AFS International og margt fleira.
Fyrir mig var þetta virkilega nytsamlegt námskeið. Bæði fórum við yfir efni sem mun hjálpa mér mjög mikið í starfi og gera mér kleift að vinna ennþá betur að uppbyggingu sjálfboðaliðastarfsins og svo var líka allveg ómetanlegt að fá að kynnast öðru fólki sem sinnir sama starfi. Það er ótrúlegt hversu mikið hægt er að læra af kollegum sínum um alla Evrópu og víðar. Sérstaklega fannst mér gott að hitta norrænu kollegana en þau vinna mörg hver við svipaðan veruleika og við gerum hér á Íslandi.
Ég hlakka mikið til næsta fundar á þarnæsta ári.
Texti og myndir: Tinna Sveinsdóttir, Fræðslustjóri AFS á Íslandi