Mig hefur lengi langað í skiptinám til Asíu. Þessi heimshluti heillar mig svo mikið. Hvernig getur t.d. Staður eins og Japan sem líkist Íslandi umhverfislega verið svona ótrúlega frábrugðinn okkur menningarlega? Hvernig ætli það sé að dýfa sér í menningarheim Kína eða Indónesíu og búa þar?

Ég fékk sjokk þegar ég sá auglýsingu AFS á Instagram. AFS er að hefja nýtt þriggja mánaða PEACE skiptinemaprógramm í Asíu. Hentaði fullkomlega fyrir mig.

Í PEACE eigum við að velja okkur málefni sem skipta okkur máli og munum við koma til með að skila greinagerð um það málefni og stöðu þess hérlendis áður en við förum, og svo alveg eins um dvalarland okkar þegar við komum heim. Það var úr svo miklu að velja, umhverfi, stríð, fátækt, mannréttindi, svo eitthvað sé nefnt. Ég valdi kvenréttindi, málefni sem er mér hjartnæmt.

AFS í Kína samþykkti umsóknina mína og ég fór strax á App Store og sótti mér Duolingo og ChineseSkill til að byrja að læra málið. Ég er mjög heppin með það að ég næ tungumálum almennt vel, og ég ætla mér að læra eins mikið og ég get áður en ég fer út. PEACE er styttra en hefðbundið AFS skiptinám svo ég mun reyna að fá eins mikið úr dvölinni og ég mögulega get á sem stystum tíma.

Mér skilst að staða kvenna í Kína sé mjög frábrugðin stöðu kvenna á Íslandi, án þess þó að vita hvernig eða hvers vegna. Ég er því bæði mjög spennt og kvíðin að halda í þetta ferðalag, en geri mér grein fyrir því að þetta muni vera mjög gott fyrir mig andlega, muni þroska mig og styrkja, ásamt því sem ég vona að ég geti nýtt nýju tungumálahæfnina í framhaldsnámi og starfi.

Ég er mjög þakklát fyrir það að hafa hent sjálfri mér í djúpu laugina með þetta, það var ekkert annað í stöðunni. Pása í framhaldsskóla og önn til Asíu er klárlega það ævintýralegasta sem ég hef ákveðið og ég er ekkert smá spennt.

____________________
Dagný Halla Ágústsdóttir, verðandi skiptinemi í Kína