Í stóru húsi í skógarrjóðri í útjaðri Brussel átti sér stað einstaklega skemmtileg samkoma, dagana 13.-20. apríl síðastliðinn. Þangað var komið fólk frá öllum heimshornum, allt frá Malasíu í austri til litla eylandsins okkar hér í vestri.
Við vorum 6 sem komu á staðinn á föstudegi, sjálfboðaliðar fyrir hönd heimalands okkar innan Evrópu sem biðu með ofvæni eftir að fá að kynnast þessu nýja prógrammi – PEACE prógramminu – og þátttakendum þess sem núna höfðu búið í 3 mánuði hjá Evrópskum fjölskyldum og voru á leið aftur til síns heima í Asíu.
PEACE prógrammið, eða Peace in Europe and Asia through global Citizenship Education eins og það heitir fullu nafni, er tvíþætt verkefni sem hóf göngu sína núna í ár. Þetta er ný gerð af skiptinámi sem veitir evrópskum ungmennum ómetanlegt tækifæri til að kynnast Asíu og asískri menningu og á sama tíma að leggja sitt af mörkum til að stuðla að betri heimi. Annars vegar koma asískir unglingar til Evrópu og hins vegar fara Evrópubúar til Asíu í 3 mánuði en að þeim loknum hittast þeir í Kuala Lumpur, rétt eins og við hittumst í Brussel, til að fræðast um það sem kallað er Global Citizenship og hvernig við getum tekið ábyrgð á ýmsum heimsmálum.
Á þessari viku sem ég var í Belgíu lærði ég fullt um málefni sem mannkynið allt þarf að glíma við og hvernig við getum haft áhrif. Ég kynntist líka fullt af yndislegu fólki, hverju öðru frambærilegra. Undirbúningsteymi, sjálfboðaliðar og skiptinemar sem deildu sögum sínum og hugmyndum, sýndu það að framtíðin er svo sannarlega björt!
PEACE er skipulagt af EFIL, regnhlífarsamtökum AFS í Evrópu og AAI, regnhlífasrsamtökum AFS í Asíu. Ef þú vilt vita meira um PEACE getur þú skoðað heimasíðuna hér: www.afspeace.eu
____________________
Þorbjörg Anna Gísladóttir, Sjálfboðaliði Reykjavíkurdeildar