Nú eru komin um fjögur ár síðan ég kom aftur heim úr árslöngu skiptinámi í Japan. Það er orðið svo langt síðan að sú þekking og reynsla sem ég öðlaðist á meðan dvölinni stóð er búin að taka baksætið í hausnum á mér. Þangað til núna það er að segja!
Í byrjun þessa árs gerðist ég sjálfboðaliði hjá AFS á Íslandi með það að markmiði að komast í samskipti við fleiri fyrrverandi skiptinema. Þrátt fyrir að hafa ekki stigið inn á AFS skrifstofuna í mörg ár fékk ég hlýlegt viðmót frá öllum viðstöddum og var fljótlega boðið að mæta á sjálfboðaliðanámskeið.
Þar var farið yfir þá ábyrgð sem því fylgir að vera sjálfboðaliði, þau fjölmörgu verkefni í boði og AFS starfið í heild sinni. Hingað til hefur mitt framlag verið í formi þess að taka viðtöl við verðandi skiptinema. Það eitt og sér finnst mér mjög gaman, en þess á milli hafa líka verið ýmsir atburðir sem ég hef fengið tækifæri til að mæta á. Þar á meðal var námskeið um menningarlæsi. Það reyndist vera skemmtilegt og eftirminnilegt námskeið sem að skildi eftir margar spurningar um hvað menning er í raun og veru. Þar að auki lærði ég margt sem getur gagnast manni í daglegu lífi.
Fyrst og fremst finnst mér ég þó hafa lært meira um mína eigin upplifun sem skiptinemi. Það á reyndar ekki bara við þetta eina námskeið, heldur hef ég seinustu mánuði sífellt verið að auka skilning minn á og sjá skiptinámið mitt frá nýjum sjónarhornum. Að vissu leiti upplifi ég sjálfboðaliðastarfið sem ég hef tekið þátt í sem tafið áframhald af skiptináminu. Ég mæli þess vegna eindregið með því að aðrir fyrrverandi skiptinemar kanni sjálfboðastarf AFS. Það hefur allavega reynst mér sem mjög gagnleg og jákvæð viðbót við tilveruna!
____________________
Sædís Rut Jónsdóttir, Sjálfboðaliði Reykjavíkurdeildar